Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, veitir samtals 23 milljónum króna fyrir jól í styrki til hjálparsamtaka um land allt sem styðja við viðkvæma hópa, svo sem með mataraðstoð.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að alls fái níu hjálparsamtök styrk til þess að geta stutt enn betur við þau sem leita þurfa aðstoðar í aðdraganda jólanna. Þau samtök eru Hjálpræðisherinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi, Fjölskylduhjálp Íslands, Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis og Kaffistofa Samhjálpar.
„Margt fólk á um sárt að binda á þessum tíma árs og mikilvægt er að styðja við hjálparsamtök sem hlúa að fólki, til dæmis með mataraðstoð,“ er haft á eftir félagsmálaráðherra í tilkynningunni.
„Hjálparsamtökin sem fá styrk sinna umfangsmikilli jólaaðstoð á hverju ári og ég óska þeim velfarnaðar þann annasama tíma sem nú er fram undan.“