Bjarg byggir 188 íbúðir og kaupir 60

Bjarg hyggst byggja þetta fjölbýlishús við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar. …
Bjarg hyggst byggja þetta fjölbýlishús við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Húsið verður áberandi í borgarlandinu. Teikning/A2F/Gríma arkitektar

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, segir félagið munu hefja framkvæmdir við 188 íbúðir á næsta ári. Jafnframt sé stefnt að kaupum á um 60 íbúðum til handa Grindvíkingum samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda þar að lútandi.

Vegna aðstæðna í Grindavík auglýsti Bjarg um síðustu helgi eftir nýjum íbúðum á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu eða í nágrannasveitarfélögum. Aðeins nýjar íbúðir sem eru tilbúnar til notkunar koma til greina.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti á dögunum áform Bjargs um að reisa allt að 40 íbúðir á horni Háaleitisbrautar og Safamýrar sem félagið fékk vilyrði fyrir árið 2021. Húsið yrði þrjár til fjórar hæðir í tveimur meginbyggingum sem tengjast saman með gegnsærri lokun til suðurs og norðurs. Íbúðirnar yrðu tveggja til fimm herbergja, 45-100 fermetrar, og sameiginleg bílastæði með 34 stæðum í kjallara.

Margt í pípunum

Björn segir framkvæmdirnar við húsið í Safamýri munu hefjast í vor en 40 íbúðir verði í húsinu. Jafnframt muni Bjarg hefja byggingu á 83 íbúðum á I-reit við Hlíðarenda. Þá verði hafnar framkvæmdir við 30 íbúðir í Reykjanesbæ, 6 íbúðir á Húsavík og 5 íbúðir á Hellu. Alls eru þetta 164 íbúðir og áformar Björn að afhenda þær á árunum 2024 og 2025. Jafn­framt mun Bjarg hefja fram­kvæmd­ir við 24 íbúðir í Mos­fells­bæ í vor og því sam­tals við 188 íbúðir á næsta ári.

Bjarg sé nú að byggja 60 íbúðir í Brekknaási í Árbæ í Reykjavík, 12 íbúðir í Sandgerði og 4 íbúðir á Hvolsvelli, eða alls 76 íbúðir, sem verða afhentar á næsta ári.

Með þeim og íbúðunum 60 fyrir Grindvíkinga verður Bjarg búið að byggja samtals um 1.100 íbúðir í lok næsta árs. Verðbólga hefur verið þrálát og hækkaði nú lítillega milli mánaða í 8%. Spáð er háum vöxtum langt fram á næsta ár hið minnsta en jafnframt hafa aðföng til byggingargeirans hækkað í verði.

Leiðrétting 1.12.: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar sagði að Bjarg myndi hefja framkvæmdir við 164 íbúðir á næsta ári. Eftir að fréttin birtist var bent á að Bjarg væri jafnframt að byggja í Mosfellsbæ og því mun félagið hefja framkvæmdir við 188 íbúðir á næsta ári.

Nánar má lesa um málið í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert