Meðferð Creditinfo á viðkvæmum persónuupplýsingum um fjárhag einstaklinga er til skoðunar innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Í tilkynningu á vef Neytendasamtakanna, sem birt var í gær, segir að meðferð Creditinfo á viðkvæmum persónuupplýsingum um fjárhag einstaklinga gæti farið á svig við lög og starfsleyfi fjárhagsupplýsingafyrirtækisins.
Kalla Neytendasamtökin og VR því eftir því að stjórnvöld hafi eftirlit með og láti gera úttekt á virkni lánshæfismats Creditinfo. Telja þau að Creditinfo hafi farið á svig við lög og hafa sent Persónuvernd erindi þess efnis og óskað eftir flýtimeðferð.
Aðspurð segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, málið til skoðunar innan ráðuneytisins.
Jafnframt var leitað til dómsmálaráðherra, sem kveðst ekki munu tjá sig um málið að svo stöddu.