Við sýnatöku á neysluvatni á Þingeyri hefur komið í ljós E.coli-mengun. Eru íbúar hvattir til að sjóða drykkjarvatn til að gæta varúðar.
Tekin voru ný sýni í gær, þann 30. nóvember. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Búast má við niðurstöðum úr sýninu um helgina. Á vef heilbrigðiseftirlitsins má einnig finna suðuleiðbeiningar og upplýsingar um örverumengað vatn.
Við sýnatöku er leitað að saurbakteríum, kólígerlum og saurkólí-gerlum, sem eru bakteríur sem hafa uppruna sinn í þörmum dýra með heitt blóð. Tilvist þeirra segir því til um ferska eða nýlega saurmengun.
Vísibakteríur í neysluvatni gefa tilefni til að álykta að aðrar og hættumeiri bakteríur gæti verið þar einnig að finna.
Í síðustu viku greindist E. coli-mengun einnig vatnssýnum í Bolungarvík og var íbúum ráðlagt að sjóða neysluvatn.