Edda fjarlægð úr fangelsinu í flýti

Edda Björk Arnardóttir
Edda Björk Arnardóttir Ljósmynd/Aðsend

Búið er að fjarlægja Eddu Björk Arnardóttur úr fangelsinu á Hólmsheiði. Aðstandendur og lögmaður hennar vita ekki hvar hún er stödd. 

Í skriflegum punktum frá Jóhannesi Karli Sveinssyni, lögmanni hennar, komu lögreglumenn og beittu valdi samkvæmt framburði fangavarða og annarra fanga. Komið var fyrirvaralaust og fangavörðum bannað að láta verjendur eða aðra vita að sögn Jóhannesar. 

Hann komst á snoðir um málið þegar fangavörður hringdi í hann til að tilkynna honum um að í flýtinum hafi gleymst lyf sem Edda á að taka og sjúkraskýrsla sem átti að fylgja henni. Að sögn hans var hún skoðuð í morgun í annað sinn vegna háþrýstings sem m.a. má ekki vera til staðar í flugi.

Þá bendir hann á að úrskurður Landsréttar um gæsluvarðhald sé enn ekki fallinn.

„Enn hefur saksóknari ekki útskýrt hvernig þessi þróun mála geti talist mannúðleg í ljósi þess að engin réttarhöld hafa verið ákveðin og (Edda) hefur ekki skrópað við nein réttarhöld. “

Þá segir systir hennar að Edda hafi verið snúin niður um leið og hún fór úr heimsókn frá henni í morgun og að samfangar hennar hafi náð að gera lögmanni hennar viðvart. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert