Egill Helgason, umsjónarmaður Kiljunnar í ríkissjónvarpinu, kveðst furðu lostinn eftir að tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í dag.
„Ég er eiginlega furðu lostinn. Gyrðir Elíasson ekki tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabækurnar Dulstirni/Meðan glerið sefur,“ skrifar Egill á Facebook.
„Þetta er ótrúleg yfirsjón, einhver sú stærsta í sögu verðlaunanna. Hinar bækurnar eru góðs maklegar, sumar framúrskarandi, en kvæði Gyrðis eru á plani sem vart þekkist hérna,“ bætir hann við.
„Athyglisvert líka að bara skáldsögur eru tilnefndar í fagurbókmenntaflokknum.“
Fleiri eru sama sinnis og kveðja sér hljóðs.
Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari, listamaður og fyrrverandi umsjónarmaður menningarumfjöllunar Morgunblaðsins, tekur undir:
„Fyrirkomulagið við valið á þessum bókum er svo aumkunarvert, kjánaskapurinn við að færa valið einhverskonar alþýðulesurum, að það er ekki einu sinni fyndið,“ skrifar Einar Falur.
„Auðvitað lendir krefjandi skáldskapur, eins og ljóðin, fyrir utan. Og hverjum er ekki sama um þetta með þessu fyrirkomulagi? Ef þessi verðlaun ættu að skipta einhverju máli þá ætti valið á þeim sem velja bækurnar líka að skipta máli...“