Ekkert varð af aðgerðum á Hólmsheiði í nótt

Bifreiðum var lagt á afleggjarann að fangelsinu og þannig komið …
Bifreiðum var lagt á afleggjarann að fangelsinu og þannig komið í veg fyrir að hægt væri að komast á bílum að fangelsinu. mbl.is/Þorsteinn

Nóttin leið á Hólmsheiði án þess að lögreglan hefði nein meiriháttar afskipti af stuðningsfólki Eddu Bjarkar Arnardóttur, sem nú situr í varðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði í tengslum við forsjárdeilu við barnsföður sinn. Hafði hópurinn ætlað að tefja eða koma í veg fyrir að lögreglan gæti sótt Eddu í fangelsið og farið með hana út á flugvöll og til Noregs.

Upphaflega hafði hópurinn, sem telur nokkra tugi og var á um 20 bifreiðum, lokað fyrir aðgengi við afleggjarann að fangelsinu. Uppi voru getgátur um að lögreglan myndi líklegast koma í kringum fimm í morgun að sækja Eddu, en beint flug til Noregs er á áttunda tímanum.

Hluti hópsins sem mætti við fangelsið í nótt, en samtals …
Hluti hópsins sem mætti við fangelsið í nótt, en samtals voru þar nokkrir tugir. mbl.is/Þorsteinn

Á fimmta tímanum færði stuðningsfólk Eddu bílana til og lagði hluta þeirra alveg upp við girðingu fangelsisins á afleggjaranum, auk þess að loka alveg fyrir umferð um Nesjavallarveginn framhjá fangelsinu frá báðum áttum.

Ekki kom þó til þess að reyndi á lokunina, því lögreglan kom ekki til að reyna að fara inn í fangelsið. Hins vegar fylgdust lögregluþjónar á einum bíl með aðgerðum fólksins af hæð fyrir ofan fangelsið í tvígang í smá tíma.

Á fimmta tímanum var lokað fyrir umferð um Nesjavallaveginn, fram …
Á fimmta tímanum var lokað fyrir umferð um Nesjavallaveginn, fram hjá fangelsinu, úr báðum áttum. mbl.is/Þorsteinn

Meðal stuðningsfólks Eddu vöknuðu upp vangaveltur í nótt hvort hún hefði verið sótt í fangelsið áður en þeir fyrstu mættu. Það er hins vegar talið nokkuð ólíklegt þar sem aðeins var í boði mjög stuttur tímarammi frá því að þau vissu af henni fyrir víst í fangelsinu og þangað til fyrsti maður mætti fyrir utan fangelsið. Mun það samt líklega ekki koma í ljós að fullu fyrr en nú síðar í dag, en yfir nóttina hafa fangar ekki aðgang að síma.  

Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu, segir við mbl.is að hópurinn muni áfram vera við fangelsið þangað til öruggt sé að hún fari ekki með vélinni til Ósló.

Fyrir framan fangelsið. Fleiri bílar voru svo á veginum og …
Fyrir framan fangelsið. Fleiri bílar voru svo á veginum og áttu að koma í veg fyrir umferð lögreglunnar um veginn. mbl.is/Þorsteinn

Hún sagði fyrr í nótt að allt yrði gert til að koma í veg fyr­ir framsal syst­ur sinn­ar fyrr en málið verði klárað fyr­ir öll­um dóm­stig­um hér á landi.

Þar vísar Ragnheiður til þess að Edda var hneppt í gæsluvarðhald af héraðsdómi, en hafði kært niðurstöðuna til Landsréttar. Vonaðist hún eftir niðurstöðu Landsréttar í dag, föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert