Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að stéttarfélagið hafi lengi lagt það til að settar yrðu á frekari takmarkanir á skammtímaleigu til ferðamanna en hann ræddi við mbl.is um stöðuna á leigumarkaði.
„Við í VR erum með 400 félagsmenn á Grindavíkursvæðinu og ég hef unnið náið með Herði [Guðbrandssyni] í Verkalýðsfélagi Grindavíkur. Við lögðum til og höfum lagt til lengi að það verði settar á frekari takmarkanir á skammtímaleigu til ferðamanna því hún hefur bara margfaldast,“ segir Ragnar Þór.
Ragnar segir að það sé ekki farið eftir neinum reglum og það sé ekkert eftirlit haft með þessum málum.
„Við erum að tala um þúsundir íbúða. Það hefði verið hægt að laga hrikalega stöðu á leigumarkaði. Við fengum fréttir af mannsláti, sá sem lenti í brununum upp í Árbæ. Enn eitt dauðsfallið. Þetta er í raun bara afleiðing áratuga vanrækslu stjórnvalda á húsnæðismarkaðnum.“
Ragnar bendir á að það ætti að vera stórfelld uppbygging á húsnæðismarkaði og stórauka ætti framboð, en verið sé að fara í þveröfuga átt þar sem framkvæmdir séu að dragast saman.
„Íbúðirnar sem þó eru til fara í þúsundavís í skammtímaleigu til ferðamanna. Ef þú ferð inn á Airbnb þá eru 3.800 virkar skráningar þar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur staðfest það sem við höfum verið að segja og skrifa að leyfisveitingar hafi snaraukist, þannig að þetta er gríðarlegt vandamál og gæti haft mjög mikið að segja varðandi stöðuna á húsnæðismarkaðnum,“ segir Ragnar Þór.