Fær bætur eftir að eggjastokkur var fjarlægður

Konan fór í aðgerðina á Landspítalanum árið 2015.
Konan fór í aðgerðina á Landspítalanum árið 2015. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsréttur hefur dæmt Sjúkratryggingar Íslands til að greiða konu 1,5 milljónir í miskabætur vegna aðgerðar sem framkvæmd var á konunni árið 2015 og talin var fela í sér stórkostlegt gáleysi læknis við undirbúning og framkvæmd aðgerðarinnar. Var vinstri eggjastokkur konunnar fjarlægður án hennar samþykkis og án þess að sýnt væri fram á að það hafi talist bráðnauðsynlegt.

Var með dómi Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur snúið við sem hafði talið háttsemi læknisins fela í sér almennt, en ekki stórkostlegt gáleysi.

Var liður í undirbúningu fyrir glasafrjóvgunarmeðferð

Um var að ræða kviðarholsspeglun, sem var liður í undirbúningi fyrir glasafrjóvgunarmeðferð sem konan ætlaði að fara í. Hún átti að baki langa sögu um sjúkdóminn en­dómetríósu og hafði meðal annars farið í fleiri kviðarholsspeglanir og fengið sýkingu í grindarhol eftir eggheimtu.

Í aðgerðinni átta að brenna en­dómetríósu, fjarlægja stórt endómetríóma á hægri eggjastokk og eftir atvikum hægri eggjastokkinn sjálfan, ásamt því að leysa úr samvöxtum í kviðarholi.

Taldi nauðsynlegt að fjarlægja báða eggjastokka

Í aðgerðinni sáust hins vegar einnig minni endómetríóma á vinstri eggjastokki og fór það svo að læknirinn taldi nauðsynlegt á meðan aðgerðinni stóð að fjarlægja einnig vinstri eggjastokkinn og voru því báðir eggjastokkar fjarlægðir, en um var að ræða óafturkræfa aðgerð.

Þetta hafði í för með sér ótímabær tíðahvörf konunnar, en hún hafnaði því alfarið við meðferð málsins að hafa veitt samþykki fyrir því að vinstri eggjastokkurinn yrði fjarlægður.

Kemur fram í dóminum að læknirinn hafi ritað vegna aðgerðarinnar: „Langt símtal og ljóst að [stefnandi] er sammála mati undirritaðrar og C um að fjarlægja hæ. adnexa og reyna að skræla út endometríosu í vi. eggjastokk auk samvaxta. Ég hef útskýrt fyrir henni að hún sé í talsverðri hættu á að vera með samvexti og mögulega hljótist líffæraskaði af s.s. gat á görn, blöðru eða öðru og jafnvel sé möguleiki á opinni aðgerð en hún er tilbúin í þetta, hefur skrifað undir samþykki þar af lútandi.“

Þá lá einnig fyrir staðlað eyðublað Landspítalans um upplýst samþykki sjúklings fyrir aðgerð, en þar kom fram að fjarlægja ætti hægri eggjastokk og blöðru úr vinstri eggjastokk. Svo er tekið fram að konan geri sér grein fyrir að ófyrirséð vandamál geti komið upp á meðan aðgerð stendur og samþykki að á þeim verði tekið eftir þörfum svo fremi sem slíkt verði gert á vel rökstuddan hátt og gagnreyndan.

Sem fyrr segir taldi læknurinn meðan á aðgerðinni stóð að rétt væri að fjarlægja líka vinstri eggjastokkinn.

Meðferðin ekki talin bráðnauðsynleg

Matsmenn voru fengnir til að yfirfara málið, en um var að ræða kvensjúkdómalækni og lögmann. Í matsgerð þeirra var því slegið föstu að meðferðin að taka vinstri eggjastokkinn hefði ekki talist bráðnauðsynleg.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að hvergi í gögnum sem lágu fyrir um aðdraganda aðgerðarinnar hafi verið getið þess að fjarlægja ætti eggjastokkinn við aðgerðina. Það hafi því verið atriði sem konan hefði sjálf átt að fá ráðið um. Taldi Landsréttur ósannað að konan hefði samþykkt það og því hafi verið farið þvert gegn þeim tilgangi með aðgerðinni að undirbúa hana undir glasafrjóvgunarmeðferðina.

Hafði áður fengið 9,5 milljónir í bætur

Með þessu telur Landsréttur sýnt fram á að læknirinn hafi sýnt af sér líka háttsemi að telja verði það sem stórkostlegt gáleysi og þar með eru skilyrði uppfyllt þannig að hún eigi rétt á miskabótum. Hafi konan verið svipt allri von um frekari barneignir með aðgerðinni.

Við meðferð málsins fyrir héraði hafði konan og Sjúkratryggingar þegar gert með sér sátt um annað en miskabótakröfuna og var þar fallist á að greið konunni 9,5 milljónir í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka