„Það er um að gera að drífa sig út og teyga í sig þessa lágu sólargeisla sem eru hérna í suðri í desember,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Í samtali við mbl.is segir hann von á hinu fallegasta aðventuveðri á höfuðborgarsvæðinu um helgina og því sé um að gera fyrir borgarbúa að drífa sig út í birtuna. Snjókomulíkur eru seint á sunnudaginn og á mánudagsmorgun.
Aðspurður segir hann vissulega von á kulda á landinu vegna hægari vindáttar og útgeislun yfirborðs. Hann segir það þó engar kuldatölur sem skeri í augu.
Hann segir letilega hæð yfir Grænlandi eins og er, sem geti narrað veðurfræðinga til að halla sér aftur í stólnum frá veðurkortunum. Það sé hins vegar ekki æskilegt þar sem undir sléttu og felldu yfirborðinu kunna að leynast veilur og jafnvel djúpir pyttir.
Til að mynda sé nú lægðardrag yfir Tromsö í Norður-Noregi sem leyni á sér og stefni rakleiðis í átt að Íslandi.
„Hún fer vestur yfir landið á sunnudaginn og hrærir aðeins upp í pottinum og með því fylgja snjókomukaflar,“ segir Einar og bætir við að ekki sé hægt að segja nákvæmlega með hvaða móti slíkir snjókomukaflar yrðu. Það sé hins vegar nokkurn veginn gefið að snjóa muni á Norðurlandinu.
Einar heldur úti umfjöllun um veðrið á vefsíðunni Blika.is og má finna umfjöllun hans í dag hér.