Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur undanfarna daga skrásett stærstu holurnar sem hafa myndast í jarðhræringunum í bænum. Að sögn formannsins Boga Adolfssonar er reynt að fara kerfisbundið í verkið og fylla upp í holurnar í kjölfarið.
„Það er traffík í bænum og annað. Menn vilja vera tilbúnir að bregðast við ef einhver dettur í holu,” greinir Bogi frá.
„Maður veit aldrei. Fólk er að labba nær og taka myndir. Það getur verið krapi undir og svo kannski þiðnar. Svo er þarna mjúk torfa sem þú stígur út á,” bætir hann við.
Með fréttinni fylgir einmitt mynd af 25 metra djúpri holu, sem tengist stóru sprungunni sem liggur í gegnum bæinn, sem fannst við Hópbraut fyrr í vikunni.
Aðspurður kveðst Bogi ekki vita til þess að nokkur hafi dottið ofan í holu í bænum. Hann hafi þó séð myndir af holum á Facebook. „Núna væri selfístöngin rosalega góð ef hún væri vinsæl aftur svo að fólk fari ekki of nálægt.”
Bogi segir björgunarsveitina hafa unnið við að setja upp girðingar og merkingar í bænum til að fólk átti sig á holunum sem um ræðir.
Fólk má vera á ferli í bænum á daginn á meðan bjart er úti og hvetur hann það til að fara varlega og láta vita af sér.
„Þetta er mjög hættulegt. Þú getur alveg dottið niður ef þú ert einn á ferð að gera eitthvað. Bara að vera forvitinn í smá stund getur kostað það að við finnum þig ekki fyrr en daginn eftir, maður veit aldrei.”