Hluta húsnæðis Reykjalundar lokað

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir heilbrigðisráðuneytið þurfa að kynna sér betur niðurstöður viðamikillar úttektar verkfræðistofu sem skilað hefur frá sér skýrslu um ástand húsnæðis Reykjalundar, en í gær var ákveðið að loka skyldi hluta þess vegna bágs ásigkomulags.

Willum segir ráðuneytið þurfa að rýna vel í það hvaða afleiðingar lokunin hafi og reyna eftir fremsta megni að sjá til þess að lokunin raski starfsemi og þjónustu Reykjalundar sem minnst til þess að hægt sé að tryggja að þjónustusamingurinn haldi.

„Ráðuneytið hefur haft húsnæðismál endurhæfingarstofnana almennt til skoðunar,“ segir í skriflegu svari Willums við fyrirspurn Morgunblaðsins. „Markmiðið er að móta heildstæða stefnu í húsnæðismálum endurhæfingarþjónustu, með jafnræði að leiðarljósi og leiðir skoðaðar til fjármögnunar á viðhaldi húsnæðis sem hýsir slíka þjónustu.“

Að sögn Willums Þórs er mikilvægt að rétt sé staðið að næstu skrefum. Hann segir samningaviðræður á milli SÍ og Reykjalundar um veitingu þjónustu í fullum gangi, en í núgildandi samningi um veitingu þjónustu Reykjalundar má einungis nýta fjármagn samningsins í veitingu heilbrigðisþjónustu.

„Þverfaglega endurhæfingin sem er veitt á Reykjalundi er veigamikill þáttur í endurhæfingarþjónustu á Íslandi. Núgildandi samningur SÍ við Reykjalund er frá árinu 2020 og samkvæmt honum má einungis nýta fjármagnið í veitingu heilbrigðisþjónustu og felur ekki í sér sérstakar greiðslur vegna viðhalds eða leigukostnaðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert