Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar sem lögreglan vill flytja úr landi í nótt, er nú komin upp að fangelsinu á Hólmsheiði og hyggst reyna að koma í veg fyrir flutning systur sinnar.
Fleiri eru með Ragnheiði í liði. Vinir og vandamenn Eddu eru líka á staðnum; bróðir, sonur og tengdadóttir þar á meðal.
Þangað er fólkið komið á að minnsta kosti ellefu bílum. Þeir loka fyrir veginn að mestu leyti en hindra þó ekki alveg för þar um að sinni.
Ragnheiður bætir við að auk þess sé einn lögreglubíll kominn á staðinn, „og var að reyna að reka okkur í burtu“.
„Við ætlum að vera hér þangað til annað kemur í ljós,“ segir hún og tekur fram að fjöldi fólks hafi verið ræstur út. Vonast sé til að Alþingi grípi í taumana.
Fyrst var greint frá því á mbl.is fyrr í kvöld að flytja ætti Eddu úr landi, auk þess sem rætt var við lögmann hennar um stöðuna. Furðar hann sig á framferði lögreglunnar.
„Við sitjum hér og bíðum og vonumst til að þingheimur taki við sér. Mér skilst að einhver ætli að taka þetta upp á morgun. En þeir geta alveg eins tekið þetta fyrir á næsta ári, ef þeir ætla að taka þetta fyrir á morgun.“
Aðspurð segir hún að samkvæmt sínum heimildum eigi að flytja systurina Eddu úr fangelsinu klukkan fimm í nótt. Út frá því telur hún að nýta eigi farþegaflug frá Keflavíkurflugvelli á áttunda tímanum, en fleiri en ein vél tekur þá á loft til Óslóar.
„En við verðum bara hér, þangað til við heyrum eitthvað frá einhverjum.“
Hvernig heldurðu að þetta fari núna í nótt?
„Við erum ekkert rosalega bjartsýn. Ég meina, ef þeir ná að koma henni út, þá náttúrulega fellur málið fyrir Landsrétti um sjálft sig. Það er náttúrulega búið að brjóta á hennar rétti. Það er búið að kæra þessa ákvörðun og Landsréttur á að úrskurða. En ef hún verður flutt úr landi áður en það er gert, þá náttúrulega fellur málið niður.“
Það er núna seint í kvöld, sem henni er tjáð að það eigi að flytja hana úr landi?
„Já, þeir voru sem sagt að loka fangaklefanum klukkan 22 í kvöld og eru að setja hana inn í klefann. Þá segja þeir við hana að hún verði flutt út í nótt. Og svo ætla þeir bara að loka hana inni.“
Ragnheiður segir systur sína hafa þverneitað að láta loka sig inni.
„Ekki fyrr en hún er búin að hringja í lögmann. Þeir ætluðu ekki að leyfa henni það, en hún náði að fá það í gegn og fékk að hringja í lögmann. Þannig við erum eiginlega bara bit yfir því, hvernig þeir eru að vinna þetta mál, í skjóli nætur.
Hún hefði bara verið farin úr landi, þegar allir færu á fætur í fyrramálið, ef hún hefði ekki neitað að fara inn í klefann. Og það síðasta sem ég heyrði frá þeim var að ég mætti koma í heimsókn til hennar klukkan 9.30 í fyrramálið,“ segir Ragnheiður.
„Það er verið að fela hluti og við vitum ekkert af hverju. Eins og lögmaðurinn segir – hann veit ekki hver tekur þessa ákvörðun. Það virðist enginn vita neitt. Þetta er bara alveg glórulaust dæmi. Bara, hver er það sem stýrir þessu?“