Hraði landrissins er mikill

Mælirinn í Svartsengi er norðaustan við Bláa lónið.
Mælirinn í Svartsengi er norðaustan við Bláa lónið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land nálgast nú fyrri stöðu við GPS-mælinn í Svartsengi áður en land fór að rísa síðla októbermánaðar. Nemur landris um 23 sentimetrum á átján dögum, en undanfarna daga hefur land risið um einn sentimetra á dag.

Í gær, 30. nóvember, vantaði um þrjá sentimetra í að landið næði þeirri stöðu sem það var í 25. október. Þá hófst jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga.

Nýjasti punkturinn, sá græni, er frá því í gær, 30. …
Nýjasti punkturinn, sá græni, er frá því í gær, 30. nóvember og sýnir stöðu landrissins. Um 3 sentimetra vantar upp á að land nái sömu stöðu og 25. október. Graf/Veðurstofa Íslands

Um 35 sentimetra landsig 10. nóvember

Í kjölfar fyrstu skjálftanna reis landið hratt, en þó ekki á jafn miklum hraða og það hefur gert eftir atburðina 10. nóvember. Þá var landrisið rúmlega tíu sentimetrar á sextán dögum.

Mikið landsig varð í kjölfar þess að kvika hljóp frá Svartsengi austur undir Grindavíkurveg og í Sundhnúkagígaröðina. Þá seig land um 35 sentimetra. Eftir 12. nóvember tók land að rísa á ný og er hraðinn tvöfalt meiri en áður.

Telja vísindamenn að nú streymi kvika aftur upp á svæðinu, sennilegast á frekar afmörkuðu svæði norðvestan við Þorbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert