„Hvergi minnst á aðkomu Hveragerðis“

Geir Sveinsson, bæjarstjóri Hveragerðis.
Geir Sveinsson, bæjarstjóri Hveragerðis. mbl.is/Sigurður Bogi

Geir Sveinsson, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að sveitarfélagið Ölfus hafi ekkert formlegt erindi sent á Hveragerðisbæ, bæjarfulltrúa Hveragerðis eða bæjarstjóra um fyrirhuguð áform um rannsóknir á frekari virkjun í Ölfusdal.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geir sem birt er á vef Hveragerðisbæjar í dag.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, sagði í samtali við mbl.is í gær að níu mánuðir væru liðnir frá því Hvera­gerðisbæ hefði verið til­kynnt um fyr­ir­huguð rann­sókn­ar­leyfi vegna mögu­legr­ar virkj­un­ar í Ölfus­dal ofan Hvera­gerðis.

„Þann 24. febrúar sl. sendi bæjarstjóri Ölfuss erindi á Orkustofnun, stílað á orkumálastjóra, Höllu Hrund Logadóttur og var afrit þess bréfs sent á bæjarstjóra Hveragerðisbæjar (í cc.). Í þessu erindi kemur m.a. fram vilji Ölfuss að hefja viðræður við Orkustofnun og Íslenska ríkið og eftir atvikum Veitur ohf. um sameiginlega stefnumótun um jarðvarmanýtingu í Ölfusdal en hvergi minnst á aðkomu Hveragerðis á nokkurn hátt í því samhengi,“ segir Geir í tilkynningunni.

Geir segir að í niðurlagi erindisins til Orkustofnunnar er þeim aðilum sem fengu afrit af erindinu boðið að senda inn athugasemdir og koma sjóbarmiðum sínum á framfæri við sveitarfélagið, svo taka megi tillit til þeirra, ef einhver eru, við undirbúning umsóknar um rannsóknarleyfi Ölfuss til Orkustofnunnar.

Engin viðbrögð við bókun bæjarráðs Hveragerðis

„Það var gert á fundi bæjarráðs Hveragerðis þann 02. mars sl. með bókun bæjarráðs, eða sex dögum eftir að umrætt afrit barst. Í bókuninni kemur meðal annars fram, að það séu „sameiginlegir hagsmunir beggja sveitarfélaga að öll nýting í Ölfusdal sé gerð í samráði og með samþykki beggja sveitarfélaga“, auk þess sem komið er inná mikilvægi þess að virkjanaáform skili ábata til nærsamfélagsins, þ.e. Hveragerðis,“ segir Geir.

„Því hljóti fyrsta spurning að vera, hvort það þjóni hagsmunum íbúa Hveragerðis og í næsta nágrenni Hveragerðis að sett verði virkjun við túnfót þeirra.“

Símtal frá forstjóra 2 tímum fyrir fréttamannafund

Hann segir að bókun bæjarráðs Hveragerðis við afriti af bréfi Ölfuss til Orkustofnunar, þar sem fram koma athugasemdir og sjónarmið Hveragerðis, var send til sveitarfélagsins Ölfuss þann 3. mars sl. Í þá níu mánuði sem liðnir eru hafa engin viðbrögð við bókun bæjarráðs Hveragerðis komið frá Sveitarfélaginu Ölfusi.

„Til viðbótar má þess geta að bæjarstjóri Ölfuss hafði ekki samband við bæjarstjórn né bæjarstjóra Hveragerðis í aðdraganda blaðamannafundar OR, Sveitarfélagsins Ölfus og Títan, hvorki með tölvupósti né símtali. Einu upplýsingarnar sem bárust um málið voru að forstjóri OR hringdi í bæjarstjóra Hveragerðis rúmum tveimur tímum fyrir umræddan blaðamannafund og tilkynnti að von væri á tilkynningu um hann í tölvupósti,“ segir Geir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert