Stór hola opnaðist skömmu fyrir hádegi undir gröfu sem var að störfum í kringum sprunguna miklu í Grindavík.
„Ég er að vinna á beltavél í kringum sprunguna stóru og laga lagnir. Ég var að fara yfir hana og þá súnkaði undan mér,” segir Henry Ásgeirsson, gröfumaður hjá Jóni og Margeiri.
Hann segir svæðið allt úti í sprungum og í raun stórhættulegt.
Spurður hvernig honum leið kveðst Henry ekki hafa áttað sig á því strax hvað var í gangi. „Vélin byrjaði að halla eitthvað, svo sá maður þetta og ég færði mig. Það var engin hætta á ferð, vélin hefði aldrei dottið þarna ofan í. Þetta er aldrei hættulegt, nema fyrir gangandi,” lýsir Henry, sem tók sig til og fyllti sjálfur upp í sprunguna.
Hann segist ekkert vera smeykur að vinna í bænum þrátt fyrir að hættustig almannavarna ríki þar og sprungurnar séu margar.
Vörubílstjórinn Jón Berg Reynisson, samstarfsmaður Henrys, var skammt undan þegar þetta gerðist og smellti ljósmyndum af holunni.
„Við vitum aldrei hvað er undir okkur í þessum störfum en þarna var holan ekki stærri. Jörðin getur súnkað niður og við vitum ekki hvað þetta er djúpt og breitt,” segir hann.
„Við reynum að fara varlega en það getur allt skeð á þessu svæði.”