Mikil svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu

Ragnhildur segir loftmengunina stafa af svifryki sem kemur frá götunum …
Ragnhildur segir loftmengunina stafa af svifryki sem kemur frá götunum og magnast alla jafna þegar stillt er í veðri og þurrt, auk þess sem umferð á nagladekkjum hefur áhrif. mbl.is/Auðun

Mikil svifryksmengun hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu í dag. Á vefn­um loft­gæði.is má sjá rauðar og gular merkingar á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðisins. Auk þess eru loftgæði slæm við Þingvallavatn vegna brennisteinsvetnismengunar.

Ragn­hild­ur Guðrún Finn­björns­dótt­ir, doktor í lýðheilsu­vís­ind­um og loft­gæðasér­fræðing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un, seg­ir þetta vera árstímann þar sem loftmengun er yfirleitt hærri en venjulega. 

Magnast þegar stillt er í veðri

Hún segir loftmengunina stafa af svifryki sem kemur frá götunum og magnast alla jafna þegar stillt er í veðri og þurrt, auk þess sem umferð á nagladekkjum hefur áhrif. 

Hún segir að rykhreinsa þurfi göturnar eða rykbinda til að stemma stigu við loftmenguninni þegar stillt er í veðri. Það sé þó á forræði sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar að gera það. 

„Það dregur úr, sérstakeiga ef göturnar eru ekki bara þrifnar heldur líka notað rykbindiefni. Þá helst gatan rök í einhvern tíma og svifryk minnkar,“ útskýrir Ragnhildur. 

Ekki slæm allsstaðar

Hún hvetur fólk, og þá sérstaklega viðkvæma, til að fylgjast vel með loftgæðum inni á loftgæði.is. Hún bendir þó á að loftgæðin séu ekki slæm á öllu höfuðborgarsvæðinu, samanber að þegar fréttin var skrifuð voru loftgæði í Vesturbænum mjög góð þó svo að loftgæðin við Háaleiti voru merkt óholl. Á milli mælanna eru einungis um fimm kílómetrar. 

Því hvetur hún fólk til að horfa til þeirra stöðva sem eru hvað næst þeim. 

Rauð merking við Þingvallavatn

Þá er mælirinn við Þingvallavatn jafnframt rauðmerktur, en Ragnhildur segir það vera vegna loftmengunar sem stafar af brennisteinsvetni, ekki svifryks. 

„Getur stundum orðið svolítið hátt í kringum virkjanir og kemur stundum yfir borgina, til dæmis frá Hellisheiðarvirkjun. Það er einkum í hægum austlægum áttum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka