Ríkisstjórnin óskar eftir leiguhúsnæði fyrir Grindvíkinga

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkisstofnunin Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir hefur nú auglýst eftir fasteignum tímabundið til leigu fyrir íbúa Grindavíkur.

Í tilkynningu segir að þetta sé gert til að styðja enn frekar við öflun húsnæðis fyrir Grindvíkinga sem rýma hafa þurft heimili sín, að höfðu samráði við Grindavíkurbæ, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið og innviðaráðuneytið.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að aðgerðinni sé ætlað að auka við framboð eigna fyrir þennan hóp og sé hluti af húsnæðisstuðningi ríkisins við Grindvíkinga, sem einnig samanstendur af launastuðningi, leigustyrk, sem er í meðförum þingsins og áður tilkynntu kaupum ríkisins á fasteignum.

Tilbúnar til notkunar sem fyrst

Upplýsingum um fasteignirnar verður safnað á island.is/grindavik og Grindvíkingum til skoðunar og eftirfylgni.

„Er horft til þess að með þessum samstilltu úrræðum verði hægt að stuðla að því að húsnæðisþörf Grindvíkinga verði leyst eins og fljótt og vel og hægt er. Í auglýsingu FSRE segir að eignirnar þurfi að vera lausar og tilbúnar til notkunar sem fyrst og til leigu í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Óskað er eftir íbúðum og sérbýli á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum. Eignirnar verða auglýstar til leigu á leigutorgi sem eingöngu er ætlað fólki með lögheimili í Grindavík. Samningar um leigu húsnæðis verða gerðir á milli íbúa og eigenda, án aðkomu opinberra aðila,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert