„Skítkalt“ að setja upp stjörnuna

„Það var skítkalt þarna uppi. Það er alltaf kaldara í 38 metrum heldur en niðri á jörðinni,” segir Lúðvík Þorsteinsson, starfsmaður Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

Hann og samstarfsmaður hans fylgdu áratuga langri hefð í gærmorgun þegar þeir settu upp jólastjörnu fyrir ofan sementsgeyma verksmiðjunnar. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að koma Skagamönnum í jólaskapið.

Átta ár eru liðin síðan blaðamaður spurði Lúðvík síðast út í stjörnuna og síðan þá hefur þessi fallega hefð haldist óslitin. 

Þurftu að sæta lagi 

Verkefnið tók um 40 til 50 mínútur, frá því að krani kom á svæðið og þangað til stjarnan var komin upp. Beðið var eftir logni, bæði vegna kranans og vegna þess að stjarnan er tiltölulega létt og sveiflast því mikið til í vindi.

„Það þarf að sæta lagi með veður,” segir Lúðvík.

Nokkur ár eru liðin síðan ný jólastjarna tók við af þeirri gömlu. Venjulegar ljósaperur voru í þeirri síðarnefndu og þurfti Lúðvík stundum að fara aftur upp á geymana nokkrum sinnum á hverri aðventu til að skipta um perur með tilheyrandi veseni. Nýja stjarnan samanstendur af led-perum, með tilheyrandi orkusparnaði, og á henni eru átta til tíu seríur.

Jólastjarnan er komin á sinn stað.
Jólastjarnan er komin á sinn stað. Ljósmynd/Aðsend

Engin stjarna = engin jól

„Þetta pumpar aðeins upp desember að fá að standa í svona brasi,” bætir hann við, spurður út í þessa hefð. „Maður kemst ekki í jólaskap fyrr en stjarnan er komin upp. Ef hún fer ekki upp verða engin jól.”

Lúðvík er einn fjögurra starfsmanna Sementsverksmiðjunnar. Í hópnum eru þrír karlmenn og ein kona. Þar fyrir utan er einn framkvæmdastjóri.

Hann segir það vissulega sérstakt hve mikil breyting hefur orðið á Sementsreitnum svokallaða undanfarin ár en þar er uppbygging hafin á íbúðarhúsnæði.

„Þetta var gömul verksmiðja með alls konar tól og tæki sem fylgdu sem eru ekki í dag. Þetta er betra vinnuumhverfi núna, svæðið er orðið hreint og fínt og bærinn hefur gert vel í þeim efnum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert