Tendra 6.800 jólaljós á sunnudaginn

Óslóartréð á Austurvelli árið 2019.
Óslóartréð á Austurvelli árið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólaljósin á Óslóartrénu á Austurvelli verða tendruð á fyrsta sunnudegi í aðventu þann 3. desember næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar, en tréð dregur nafn sitt af því að vera gjöf frá Óslóarborg. Tréð er liðlega 12 metra hátt og var fellt í Heiðmörk fyrr í vikunni. Mun það skarta heilum 6.800 jólaljósum og 120 gylltum jólakúlum. 

Dagskrá hefst klukkan 15.30 og verður eftirfarandi: 

  • Lúðrasveit Reykjavíkur leikur aðventu- og jólalög frá kl. 15.30.
  • Tufti og tröllabörnin mæta á Austurvöll til að gleðja gesti og gangandi.
  • Sigríður Thorlacius og Snorri Helgason ásamt hljómsveit munu flytja falleg jólalög.
  • Abdullah Alsabeehg borgarfulltrúi flytur kveðju frá Óslóarborg og afhendir þýddar bækur að gjöf sem gefnar verða á skólabókasöfn í grunnskólum Reykjavíkur.
  • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, flytur þakkarræðu og norsk-íslenski drengurinn Kristþór Viljar Danson, fjögurra og hálfs árs, mun aðstoða við að tendra ljósin á trénu klukkan 16.00.
  • Jólasveinarnir Bjúgnakrækir og Askasleikir stelast í bæinn til að syngja og skemmta kátum krökkum.

Kynnir viðburðarins er Katla Margrét Þorgeirsdóttir, leikkona, og verður dagskráin túlkuð á táknmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert