„Við verðum að vera bjartsýn“

Ráðstefnan hófst í gær. Búist var við yfir 70 þúsund …
Ráðstefnan hófst í gær. Búist var við yfir 70 þúsund fulltrúum. AFP/Jewel Samad

Hnattræn stöðutaka, markmið Parísarsáttmálans, mikilvægi vísinda við ákvarðanatöku og mannréttindi verða ofarlega á baugi íslensku sendinefndarinnar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28 í Dúbaí.

Tugþúsundir fulltrúa eru mætt á ráðstefnuna til að ræða loftslagsmál en yfir 80 fulltrúar fara í heildina frá Íslandi.

„Það hefur gengið mjög vel,“ segir Helga Barðadóttir, sérfræðingur umhverfisráðuneytisins, sem er formaður íslensku sendinefndarinnar sem telur 12 manns. 

„Það var tekin mjög stór ákvörðun strax í kjölfar setningar fundarins sem er alveg nýtt og hefur ekki verið gert áður. Það var um nýjan sjóð sem á að styrkja fátækustu ríkin sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af loftslagsbreytingum. Það er bara mjög stórt mál.“

Hver er munurinn á þessum sjóði og þeim sem var ákveðið að koma á laggirnar á síðasta COP?

„Þetta er sami sjóður. Í fyrra var ákveðið að það ætti að gera þetta og núna er búið að vinna að því í allt ár hvernig sjóðurinn eigi að vera og nú er búið að setja hann á laggirnar. Það voru ríki sem tilkynntu strax um framlög í sjóðinn þannig að hann er orðinn starfhæfur þó það eigi enn eftir að útfæra ýmis tæknileg atriði.“

Skiptar skoðanir

„Við viljum fylgja eftir þeim málum sem eru hér efst á baugi eins og hnattræn stöðutaka, sem er skrifað í samninginn að eigi að gera á fimm ára fresti en núna er þetta í fyrsta skiptið sem þetta er gert. Það hefur fordæmisgildi hvernig þetta verður gert og hvað kemur út úr þessu.“

Við hnattræna stöðutöku (e. global stocktake) er metið hvernig ríki standa miðað við markmiðin sem sett voru á COP21 í París árið 2015 þegar skrifað var undir Parísarsáttmálann.

Er markmið sáttmálans að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar en einnig er kveðið á um að jafnframt skuli leitast við að halda hækkuninni undir 1,5°C.

„Það eru mjög skiptar skoðanir enn þá um það hvernig eigi að taka á þessu. Við erum bara að fylgja því mjög vel eftir,“ segir Helga.

Helga Barðadóttir, formaður sendinefndar Íslands.
Helga Barðadóttir, formaður sendinefndar Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið ekki úr sögunni

Eitt af því sem hefur verið ofarlega á baugi COP-ráðstefnanna undanfarin ár er að halda markmiðinu um 1,5 gráðuna, sem kveðið er á um í Parísarsáttmálanum, á lífi. 

Ertu bjartsýn á að það takist eða er það markmið úr sögunni?

„Við verðum að vera bjartsýn. Þetta er ekki alveg úr sögunni en það þarf að herða sig. Það gerir það ekki bara ein þjóð, það verða allir að leggja sitt af mörkum. Það verða allir að taka sig á og skila aðgerðum.“

Hvernig hefur Íslandi tekist að standa við sín markmið?

„Þetta er stór spurning. [...] Við höfum náttúrulega verið með okkar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við erum með markmið sem við erum að vinna að með Evrópusambandinu og Noregi,“ segir Helga.

„Við erum núna að gera upp fyrsta tímabilið þar sem við höfum staðið okkur ágætlega en þurfum að gera betur af því að það er verið að herða markmiðin – það er augljóst að við þurfum að gera betur.

Við erum að vinna að uppfærðri aðgerðaáætlun, það er vinna sem er á fullu í ráðuneytinu núna, ekki bara í umhverfisráðuneytinu heldur mjög mörgum ráðuneytum Stjórnarráðsins og við höfum leitað til atvinnulífsins líka, til að taka þátt í þessari vinnu. Það er vinna sem verður kynnt fljótlega á næsta ári.“

Búist við yfir 70 þúsund

Ríflega áttatíu fulltrúar fara á COP28 frá Íslandi en í heildina er áætlað að yfir 92 þúsund taki þátt í ráðstefnunni og tengdum viðburðum í Dúbaí. Eru þetta mun fleiri fulltrúar en komu saman á COP-ráðstefnunni síðustu ár þó fjöldinn þá verði líka talinn í tugþúsundum.

Hefur ráðstefnan sætt gagnrýni fyrir þá mengun sem hlýst m.a. af ferðalögum fólks til og frá henni.

„Ef það á að halda þessar ráðstefnur einhvers staðar þá verður alltaf langt fyrir einhvern,“ segir Helga spurð út í gagnrýnina. „En það má alveg ræða það hvort það sé nauðsynlegt að fá allt þetta fólk hingað,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert