Viðbúnir ef fólk dettur í sprungur

Ísak Þór sígur niður vegginn.
Ísak Þór sígur niður vegginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til að bregðast við því ef fólk skyldi detta ofan í sprungur eða holur í Grindavík vegna jarðhræringanna er slökkvilið bæjarins byrjað að æfa sig í því að síga. Hingað til hafa slíkar æfingar eingöngu verið á könnu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.

„Miðað við ástandið í bænum núna er aukin hætta á því að fólk detti í sprungur. Það eru að opnast alltaf nýjar og nýjar sprungur og holur þannig að við þurfum að vera undir það búnir að geta brugðist við,” segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sem ræddi við blaðamann í bænum í gær.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Æfingarnar fara fram í samstarfi við björgunarsveitina, enda þekkingin á þessum málum meiri þeim megin. Slökkviliðið er sömuleiðis komið með aukinn búnað til að bregðast við útköllum sem þessum.

„Þetta er samstarfsverkefni ef svona slys verða, þannig að við stöndum allir klárir á því,” segir Einar Sveinn.

Fær hjartað til að slá hraðar

Ísak Þór Ragnarsson slökkviliðsmaður var að síga niður af nokkurra metra háum vegg í bænum þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði. Allt gekk eins og í sögu, nema hvað að Ísak Þór missti annan skóinn sinn í miðju sigi.

Ísak Þór hafði gaman af siginu.
Ísak Þór hafði gaman af siginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var gaman. Þetta fær alla vega hjartað til að slá hraðar,” segir Ísak Þór, spurður hvernig tilfinningin var að síga niður vegginn.

„Það er betra að vera með þetta á hreinu ef til þess þarf,” bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert