Vita ekki hvers vegna hætt var við flutning

Jóhannes Karl Sveinsson er lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur.
Jóhannes Karl Sveinsson er lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur, móður þriggja drengja sem á yfir höfði sér réttarhöld vegna meints barnsráns í Noregi og til stóð að flytja til Noregs í nótt, segist engar upplýsingar hafa hvers vegna til stóð að flytja hana í nótt.

Þá segir hann ennfremur ekki hafa upplýsingar um það hvers vegna hætt var við flutninginn.

Hann fékk þó áheyrn dómara frá Héraðsdómi Reykjavíkur seint í gærkvöldi. Auk þess sem erindi var sent á ríkissaksóknara til að fá upplýsingar um það hvort beiðni um að flytja hana úr landi hefði komið þaðan. Engin viðbrögð komu frá ríkissaksóknara, en héraðsdómari tjáði þeim að hún teldi sig ekki hafa heimild til að grípa inn í aðstæðurnar að sögn Jóhannesar.

Beiðnin kom frá ríkissaksóknara

Stoðdeild ríkislögreglustjóra hugðist framkvæma flutninginn. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra kom beiðnin frá ríkissaksóknara. Hefur Sigríður Friðjónsdóttir nú fengið fyrirspurn um málið og bíður mbl.is svara.

Eins og fram hefur komið var Edda úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Þeim úrskurði var áfrýjað til Landsréttar hefur ekki tekið afstöðu til hennar. Kom því flatt upp á Jóhannes að farið hafi verið í flutning án þess að dómurinn hefði tekið afstöðu. 

Óskuðu eftir fresti af mannúðarástæðum

Eins hefur Jóhannes óskað eftir því við ríkissaksóknara að brottflutningi verði frestað. Byggir það á heimild ríkissaksóknara í lögum um evrópska handtökutilskipun um að hægt sé að fresta afhendingu ef ríkar mannúðarástæður eru fyrir hendi.

Sjónarmiðiðin eru þau að ekki liggi fyrir dagsetning réttarhalda og því óljóst hve lengi hún verður á forræði norskra yfirvalda áður en til réttarhalda kemur.

„Það hafa engin viðbrögð fengist við þessu,“ segir Jóhannes.

Fallist var á flutningsbeiðni norskra yfirvalda síðastliðinn föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert