Pakkasöfnun Kringlunnar fer mun hægar af stað en undanfarin ár. Beiðnum fjölskyldna um aðstoð fyrir jólin hefur á sama tíma fjölgað mikið.
Segist Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, hafa verulegar áhyggjur af stöðunni, en við jólatréð í Kringlunni er tekið við pökkum til barna á Íslandi sem búa við erfiðar aðstæður. Einnig er hægt að styrkja söfnunina á netinu með framlagi á kringlan.is.
„Hún fer alveg hræðilega af stað. Við vorum að ræða það síðast í morgun [í gærmorgun] hvað við gætum gert til að ýta þessu betur af stað. Nú er söfnunin búin að vera í viku og þetta eru í rauninni bara örfáar gjafir – en samt gjafir, við erum þakklát fyrir allt sem kemur,“ segir hún.