Kunna að hafa stækkað æðina

Land rís stöðugt áfram við virkjunina í Svartsengi og mun …
Land rís stöðugt áfram við virkjunina í Svartsengi og mun hraðar en það gerði fyrir 10. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðhræringarnar afdrifaríku, sem áttu sér stað föstudaginn 10. nóvember, kunna einnig að hafa stækkað aðfærsluæð kvikunnar frá dýpra hólfi og yfir í það grynnra. Af því leiðir að meiri kvika flæðir ofar í jarðskorpuna nú en áður.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Hann kveður jarðvísindamenn ekki hafa átt von á þessari breytingu.

Land rís stöðugt áfram við virkjunina í Svartsengi og mun hraðar en það gerði fyrir 10. nóvember. Þorvaldur segir að af því megi dæma að nóg sé af kviku í neðra hólfinu.

Skorpan veikari austan megin

„Hluti af henni er greinilega tilbúinn að koma upp. Aðstæðurnar niðri í dýpra geymsluhólfinu eru þannig að ef kvikan sér tækifæri, þá fer hún af stað. Og það er nægilega mikið magn af henni, sem þýðir að þarna er hólf sem getur viðhaldið þessari virkni í verulega langan tíma, kannski einhver ár eða áratugi til viðbótar.“

Hann segir erfitt að segja til um hvort hann búist við öðru kvikuhlaupi austan við landrisið, eins og raunin varð 10. nóvember, eða hvort hann telji líklegra að kvikan stefni vestur, fari hún aftur af stað.

„Það er búið að brjóta töluvert mikið austan megin og jarðskorpan er veikari þar fyrir. Það væri því kannski auðveldara fyrir kvikuna að fara í þá áttina. Hún getur líka farið vestur eftir og ef hún gerir það þá fer hún í Eldvörpin, en líklegra er að Sundhnúkagígarnir fari af stað.“

Svæðin gætu vel verið tengd

Samkvæmt viðtekinni skilgreiningu eldstöðvakerfa skagans mætti ætla að virknin hefði nú færst úr einu kerfi í annað, það er úr Fagradalsfjalli og yfir í Svartsengiskerfið. Þorvaldur segir að þróun mála gæti hafa grafið undan slíkri skilgreiningu.

„Mér finnst ansi margt benda til þess að þessi svæði séu tengd. Þessir atburðir sem við sjáum, í Svartsengi og Fagradalsfjalli, eru vegna kviku sem hefur safnast fyrir í þessu dýpra geymsluhólfi og síðan reynir hún að finna sér leið upp,“ segir hann.

„Það er þetta dýpra geymsluhólf sem stýrir atburðinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert