Lögreglan var kölluð út í Austurstræti í Reykjavík rétt fyrir fjögur í nótt vegna meiriháttar líkamsárásar. Grunur er um að sparkað hafi verið í höfuðið á einum.
Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá.
Þó hafi ekki verið tilkynnt um meiriháttar meiðsli.
„Þegar grunur er um að sparkað hafi verið í höfuðið á einhverjum er það alltaf tilkynnt sem meiriháttar líkamsárás.“
Að minnsta kosti fjórir tókust á í slagsmálunum. Þrír voru handteknir og var einn fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Einn þeirra handteknu var vistaður í fangaklefa.
Spurður út í líðan mannsins sem varð fyrir höfuðhögginu segir Ásgeir að það hafi þurft að sannfæra hann um að fara með sjúkrabílnum.
Ástæður slagsmálanna eru til rannsóknar og Ásgeir segir að notast verði við myndavélar í miðborginni við rannsókn málsins.
Mikið var að gera á höfuðborgarsvæðinu hjá lögreglunni í nótt.
„Fyrstu dagar mánaðarins eru oft með þessa eiginleika,“ segir Ásgeir.
Hann segir lögregluna hafa fengið um sjö tilkynningar um það sem flokka mætti sem minniháttar líkamsárásir.