Vatnsmengun rakin til bilunar

Horft yfir Bolungarvík.
Horft yfir Bolungarvík. mbl.is

„Það kom upp bilun í hreinsistöðinni sem var löguð samdægurs og vatnið hefur verið í lagi síðan,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, í samtali mbl.is.

Í síðustu viku greind­ist E. coli-meng­un í vatns­sýn­um frá Bol­ung­ar­vík og var íbú­um m.a. ráðlagt að sjóða neyslu­vatn í öryggisskyni. Jón rekur mengunina til bilunar sem kom upp í hreinsistöð vatnsveitunnar.

„Vatnsveitan í Bolungarvík er yfirborðsvatn. Þegar það kemur álag á kerfið eins og leysingar eða miklar rigningar getur álagið á hreinsistöðina orðið meira heldur en það sem hún ræður við.

Öll tæki geta því miður bilað en við erum sem betur fer með gott og virkt eftirlit og eigum auk þess í góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, sem mælir reglulega vatnið hjá okkur,“ segir Jón.

Öruggt borholuvatn fyrir 2025

Jón segir sveitarfélagið nú standa í framkvæmdum sem eigi að uppfæra vatnskerfi þess og tryggja öruggt aðgengi að borholuvatni.

„Við erum búin að bora eftir neysluvatni með ágætum árangri. Núna erum við að undirbúa framkvæmdir fyrir nýja hreinsistöð. Með þessum skrefum bindum við vonir við að geta tryggt aðgengi að öruggu borholuvatni fyrir árið 2025.

Þetta er stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins frá því að við gerðum útsýnispall á Bolafjalli,“ bætir Jón við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert