„Það er verið að vinna hörðum höndum að því að finna varanlegt húsnæði fyrir fólk og er nú í gangi heilmikið átak við að auglýsa eftir húsnæði fyrir fólk. Það eru heilmiklir möguleikar að opnast núna varðandi þær 210 íbúðir sem að ríkisstjórnin beitti sér fyrir og það er verið að gera ýmislegt til að leysa þau mál; t.d. með hjálp óhagnaðardrifnu leigufélagana Bríetar og Bjargar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, í samtali við mbl.is um stöðu húsnæðismála fyrir Grindvíkinga þessa stundina.
Starfsmenn HS Veitna hafa undanfarið verið að störfum í Grindavík við að gera við rafmagnsstrengi og hitaveitulagnir sem fóru í sundur í jarðhræringunum í bænum.
Fannar segir að það sé erfitt að koma mynd á kostnaðarmat þeirrar vinnu á þessum tímapunkti.
„Það er svo sem ekki kominn neinn verðmiði á þetta núna, enda kemur það ekki í ljós fyrr en það er farið í að grafa þetta upp þar sem ástandið er verst.
Það hefur í sjálfu sér gengið ágætlega að mynda fráveituna. Það sem er búið að fara yfir núna sem er aðallega vestast í bænum lítur nokkuð vel út og jafnvel betur en menn óttuðust. Það eru miklar skemmdir um miðbik bæjarins sem á nú að ráðast í að lagfæra. Það er nokkuð langur kafli og þá þarf að leggja lögn þaðan yfir í annað fráveitukerfi, en það er dálítið mikil framkvæmd og það getur tekið í kringum tíu daga að klára það og jafnvel lengur en það.“ segir Fannar