Íslendingur í Uluwati-hofi er forvitnilegur titill á plötu. Ekki verður annað sagt. Um er að ræða annan þátt í þríleik Stefáns S. Stefánssonar; áður var kominn Íslendingur í Alhambra-höllinni en sú plata hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin. Stórsveit Reykjavíkur flytur sem fyrr.
En hvað í ósköpunum er þetta Uluwati? Jú, það er er hindúahof í Indónesíu sem stendur á klettabarmi við sjóinn í mikilli hæð og segir Stefán erfitt að heillast ekki við slíkar aðstæður. „Þetta er magnaður staður og mikil upplifun að koma þarna.“
Fer músíkin strax að krauma í þér þegar þú kemur á svona staði?
„Já, þegar maður kemur á svona framandi staði er eins og að áhrifin skili sér einhvern veginn gegnum músíkina. Ég veit svo sem ekki hvernig ég á að lýsa því ferli. Áhrifin eru ekki endilega frá tónlist viðkomandi þjóðar eða heimshluta og ég sem ekki í þeim stíl, þó ég hafi kynnt mér indónesíska tónlist vel og hlustað mikið á hana meðan ég dvaldist þarna. Tónlistin skilar sér bara einhvern veginn gegnum þessa undarlegu síu sem er í manni. Þetta er það sem birtist í kvörninni.“
Flest verkin á plötunni eru ný af nálinni en þó er þar að finna fáein eldri verk sem Stefán endurvann. Raunar það hressilega að lítið er eftir af frumútgáfunni.
Hvernig myndir þú lýsa tónlistinni á plötunni?
„Ég myndi lýsa þessu sem ágætis hljóðsýnishorni af ADHD-vitleysingi,“ segir hann sposkur. „Tónlistin er út um allar trissur, þó hún beri mín höfundareinkenni. Hún er nálægt nútímatónlist en líka poppi og allt þar á milli. Þarna má til dæmis finna „avant garde“-djass. Maria Schneider og Bob Mintzer, sem ég hef unnið með nokkrum sinnum, koma upp í hugann enda miklir áhrifavaldar. Svo er það þannig að mér var einhvern tíma kennt og leiðbeint að skrifa bara það sem ég heyri í höfðinu. Þannig að mottóið hefur alltaf verið: Ef ég heyri það þá skrifa ég það en ef ég heyri það ekki þá skrifa ég það ekki.“
Einföld vinnuregla.
„Já, en samt ekki. Maður er enginn Mozart sem sest bara niður og skrifar.“
Sækja tónsmíðarnar hvar og hvenær sem er að þér?
„Já, það má segja það. Eitt verkið á plötunni er samið hérna í Fossvoginum, þar sem ég bý, meðan ég var að ganga með hundinn. Stundum heyri ég bara laglínur í hausnum á mér, verð annars hugar og ekkert er hægt að ræða við mig, eins og konan mín myndi orða það. Um leið og ég kom heim úr þessum göngutúr settist ég við píanóið og skrifaði verkið niður. Það heitir að sjálfsögðu Fossvogur …“
Nánar er rætt við Stefán í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.