Búin að drepa yfir fimmtíu manns

Nítjánda glæpasaga Yrsu er komin út; Frýs í æðum blóð. …
Nítjánda glæpasaga Yrsu er komin út; Frýs í æðum blóð. Yrsa segist hafa drepið yfir fimmtíu manns í bókum sínum; langoftast gott fólk. mbl.is/Ásdís

Yrsa var að senda frá sér nýja glæpasögu og er nýbúin að standa í ströngu á íslensku bókmenntahátíðinni Iceland Noir. Það er því brjálað að gera hjá konunni sem á líklega Íslandsmet í morðum; sem betur fer skálduðum. Þrátt fyrir annríki er einhver ró yfir Yrsu og hún virðist ekki stressa sig að óþörfu. Hún hellir heitu tei í bolla sem er kærkomið á köldum vetrarmorgni. Yfir sykursætu Melrose’s ræðum við nýju bókina, bráðskemmtilegan loðnutúr, bókmenntahátíðina sem olli nokkru fjaðrafoki, morð og annan hrylling.

Fólk í viðkvæmri stöðu

Í nýjustu glæpasögu Yrsu er aftur fylgst með þríeykinu Tý, Karólínu og Iðunni. Segir Yrsa Frýs í æðum blóð vera næstsíðustu bókina þar sem þau muni koma við sögu.

„Sagan hefst á því að það finnst beinagrind í Sorpu. Sagan gerist annars vegar í botnlanga í Grindavík þar sem eru miklar nágrannaerjur og hins vegar um borð í loðnuveiðiskipi þar sem ung kona er afleysingakokkur. Hún fer að komast að ýmsu um andlát föður síns sem fórst á sjó átján árum áður. Svo tengist allt saman í lokin,“ segir hún og gefur að sjálfsögðu ekki meira upp.

„Mér finnst skemmtilegt að skrifa um aðstæður þar sem fólk er í viðkvæmri stöðu; í einangrun eða eitthvað slíkt. Mér finnst sjávarútvegurinn spennandi og mig hefur alltaf langað að skrifa sögu sem gerist um borð í skipi, en það hef ég gert einu sinni áður en sú saga gerðist á snekkju. Hugmyndin að vera fastur um borð í skipi þegar eitthvað fer að gerast heillaði mig,“ segir Yrsa en hún skellti sér einmitt á loðnutúr til að geta sett sig inn í sögusviðið.

„Skipið heitir Gullberg og skipstjórinn Jón Atli bauð okkur hjónunum að koma með. Það var svo gaman og áhöfnin var svo almennileg að ég átti næstum erfitt með að láta eitthvað hræðilegt gerast um borð í skipi, þó ég væri ekki að skrifa um þessa áhöfn. Ég hugsaði með mér: Guð minn góður, er þetta kannski bara að breytast í barnabók?“ segir hún og hlær.

Af hverju í geimnum?

Á næsta ári ætlar Yrsa að klára eina glæpasögu í viðbót í þessum fjögurra bóka flokki, en getur ekki beðið eftir að byrja á aðeins öðruvísi glæpasögu; einni sem gerist ekki á Íslandi og reyndar ekki á jörðinni.

„Mig langar að skrifa hryllingssögu sem gerist í geimnum; mér finnst það mjög spennandi,“ segir hún og segir umboðsmann sinn hafa falið andlitið í höndum sér og stunið: „Af hverju í geimnum?“

„Hryllingur er allra bestur í aðstæðum þar sem manneskjan er ofboðslega viðkvæm. Og manneskjan er hvergi viðkvæmari en í geimnum þar sem ekkert má klikka. Ég sagði við hann að næst kæmust þær aðstæður því að vera um borð í kafbáti. Honum leist mun betur á það, en ég held ég haldi mig við geiminn.“

Koma geimverur við sögu?

„Nei, ég held ekki. Það verður bara einhver hryllingur,“ segir Yrsa eins og hún sé að tala eitthvað mjög hversdagslegt.

„Það mun reyna á mig og ég held það verði skemmtilegt að skapa andrúmsloftið um borð í geimskipi,“ segir Yrsa og undrrituð skýtur því að að hún myndi heldur vilja vera í geimskipi en um borð í kafbáti.

„Ég er sammála þér; það er ekki góð tilhugsun að vera fastur á hafsbotni og súrefnið á þrotum – og vatnsyfirborðið að hækka,“ segir hún og er ímyndunarafl rithöfundarins greinilega komið á flug.

„Í geimnum deyr maður bara strax ef eitthvað fer úrskeiðis; það er mun skárra.“

Yfir fimmtíu manns í valnum

Hvað ertu annars búin að selja margar bækur?

„Ég held að ég hafi heyrt töluna fimm milljónir. En ég hugsa ekkert út í það; mér finnst bara æðislega gaman að einhver vilji lesa það sem ég skrifa. Þegar ég skrifa bók hvarflar aldrei að mér að breyta einhverju til að geta selt meira, heldur skrifa ég bara það sem mig langar að skrifa hverju sinni,“ segir hún og segist vilja víkja stundum af glæpabrautinni með því að skrifa barnabækur og hryllingssögur.

„Ég vil ekki valda lesendum vonbrigðum, en ég verð að skrifa það sem mig langar að skrifa.“

Er Frýs í æðum blóð besta bókin þín?

„Ég er kannski ekki dómbær um það en hún er fín og þeir sem hafa lesið eru ánægðir. Vonandi er besta bókin sú sem ég á eftir að skrifa,“ segir Yrsa og brosir.

„Annars þykir mér vænt um allar mínar bækur.“

Hvað ertu búin að drepa marga?

„Guð hjálpi mér, það er komið vel yfir fimmtíu manns.“

Og ert ekkert hætt?

„Nei. Og það er skemmtilegra að drepa gott fólk en vont. Það er áhugaverðara að kryfja af hverju það gerist heldur en þegar vont fólk er drepið.“

Þú drepur þá bara gott fólk?

„Já, að mestu. Mér finnst alveg líka gaman að drepa fólk sem fer illa með börn til dæmis, en að öðru leyti er þetta allt fólk sem átti alls ekki skilið að deyja.“

Ítarlegt viðtal er við Yrsu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert