Magga, eins og Margrét Rósa Magnúsdóttir vill láta kalla sig, lét drauma sína rætast og lærði leiklist í Los Angeles. Magga hafði þá áður klárað stúdentspróf af leiklistarbraut í Fjölbraut í Garðabæ. Möggu dreymir nú um að reyna fyrir sér sem leikkona, annaðhvort í Bandaríkjunum eða á Íslandi.
Magga og besta vinkona hennar komust báðar inn í The American Academy of the Dramatic Arts og eru nú útskrifaðar.
„Það er rúmt ár síðan ég útskrifaðist og ég bjó svo í L.A. í ár eftir útskrift og vann hjá Warner Brothers og Netflix sem aukaleikari og einnig fyrir HBO sem áhorfandi á körfuboltaleik. Svo hef ég unnið alls konar störf til að eiga fyrir leigunni; ég vann á Elton John-tónleikum, á kvikmyndahátíðum, í brúðkaupum og á Óskarnum sem þjónn. Við sáum engar stjörnur á Óskarnum því þær vildu allar fara í annað partí en það sem var haldið þar,“ segir Magga og brosir.
Spurð um fyrirmyndir í leiklist er Magga fljót til svars:
„Hér á landi er það Edda Björgvins; ég elska hana! Í Bandaríkjunum væri það Meryl Streep og Viola Davis,“ segir Magga og segist sjálf vera meira fyrir grín en drama.
Leiklistarskóli í Hollywood heillaði Möggu meira en Listaháskólinn hér á landi.
„Ég er með stóra drauma. Ég hugsaði um LHÍ en þar komast bara inn átta manns, þannig að það er erfitt að komast inn. Ég skoðaði nokkra skóla í Bandaríkjunum og úr varð að fara í þennan í Los Angeles,“ segir hún og að þær vinkonurnar hafi leigt saman, fyrst tvær og síðar fjórar.
„Nú langar mig að vinna þar, en ég væri líka alveg til í að vinna hér á landi. Þetta eru tveir ólíkir heimar,“ segir Magga.
„Ég myndi vilja blanda saman sviðsleik og kvikmynda- og sjónvarpsleik. Mig langar að gera þetta allt!“
Hvernig er ameríski hreimurinn?
„Hann er betri og í dag er ég spurð af amerískum túristum hvaða hluta Ameríku ég sé frá.“
Magga býr nú heima um hríð og er að vinna hjá Bláa lóninu og í Fjörukránni.
„Ég er að sækja um það sem ég sé og er að reyna að koma mér meira á framfæri hér,“ segir hún.
Er draumurinn að búa í Hollywood í framtíðinni?
„Já, það er draumurinn. En eins og ég segi langar mig alveg líka að vinna hér og jafnvel í Bretlandi. Ég gæti vel hugsað mér að leika í gamanmynd hér á landi; með Eddu Björgvins kannski?“ segir hún sposk á svip.
„Ég er ástfangin af Eddu Björgvins. Stella í orlofi er í uppáhaldi og Heilsubælið.“
Hefur þú hitt hana?
„Ég afgreiddi hana einu sinni í bakaríi þegar ég var unglingur. Ég skil ekki hvernig ég náði að hemja mig en ég afgreiddi hana bara og svo fór hún,“ segir Magga og viðurkennir að hún hafi verið algjörlega stjörnuslegin.
„Ég trúði þessu ekki.“
Ítarlegt viðtal er við Margréti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.