Hussein ákvað að yfirgefa Ísland

Hussein ákvað að yfirgefa Ísland.
Hussein ákvað að yfirgefa Ísland. Ljósmynd/Aðsend

Hælisleitandinn Hussein Hussein ákvað að yfirgefa Ísland og fara til Grikklands ásamt fjölskyldu sinni.

Vísir greinir frá því að Hussein hafi ekki getað hugsað sér að dvelja hér án fjölskyldu sinnar sem vísað var úr landi. Að sögn vinkonu fjölskyldunnar séu aðstæður hjá þeim úti ömurlegar.

Fjölskyldan kom til Grikklands í gær og reyna þau nú að finna þak yfir höfuðið.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafði úrskurðað um að það mætti vísa fjölskyldunni úr landi en ekki Hussein sjálfum, sem notar hjólastól. Fjölskylda hans sinnir honum og þarf hann aðstoð allan sólarhringinn, að því er Gerður Helgadóttir, vinkona fjölskyldunnar, segir við Vísi.

Tvisvar synjað um vernd hér á landi

Hussein og fjölskyldu hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd tvisvar hér á landi og synjaði Alþingi umsókn þeirra um ríkisborgararétt fyrr á árinu.

Fjölskyldan var fyrst flutt úr landi til Grikklands í nóvember í fyrra, í kjölfar fyrri synjunar. Hún fékk þó að snúa aftur eftir að héraðsdómur ógilti úrskurðinn.

Mannréttindadómstóllinn komst að lokum að þeirri niðurstöðu að framlengja bann við brottvísun Hussein en aflétta banni gagnvart fjölskyldu hans, móður, bróður og tveggja systra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert