Keyrði stolinni bifreið utan í skilti og aðra bíla

Akstur undir áhrifum fíkniefna, fíkniefnaræktun og maður með piparúða á …
Akstur undir áhrifum fíkniefna, fíkniefnaræktun og maður með piparúða á skemmtistað voru meðal verkefna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir ökumenn voru í dag stöðvaðir af lögreglu grunaðir um ölvunar-og fíkniefnaakstur. Lögregla kveðst hafa þurft að beita valdi þegar hún handtók ökumann sem keyrði um á stolinni bifreið og ók meðal annars utan í skilti og á aðra bifreið.

Fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að á milli klukkan 5-17 hafi maður verið tekinn með piparúða á skemmtistað og málið verið afgreitt á staðnum. Lögreglan fann svo á heimili annars manns kannabisplöntur sem og fleiri fíkniefni. Maðurinn var handtekinn og málið er til rannsóknar.

Grunaður um akstur undir áhrifum

Tilkynnt var um ökumann vörubíls sem flúði vettvang eftir að hafa ekið utan í skilti og aðra bifreið. Þegar lögregla kom á vettvang kveðst hún hafa þurft að beita valdi.

Fljótlega kom í ljós að um væri að ræða stolna bifreið og að ekið hefði verið utan í fleiri hluti og aðra bíla stuttu áður.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var maðurinn vistaður í fangaklefa vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert