VG sem fer með forystu í ríkisstjórn mælist rétt yfir 6%. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir að tölur af þessu tagi hafi áhrif á stemninguna innan stjórnarliðsins.
„Það segir sig sjálft að það hefur áhrif á fólk sem starfar í stjórnmálum og sérstaklega þegar það fólk ýmist vill að flokkurinn sinn sé stór og sömuleiðis ef það vill fá áframhaldandi umboð þá fer það að máta sig við einhverjar nýjar tölur. Það er bara eins og það er og það á auðvitað við um Framsóknarflokkinn líka,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún er gestur Spursmála sem hófu göngu sína á mbl.is nú á föstudaginn. Þar mætti hún Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar. Þáttarstjórnandi spurði þær út í nýjustu mælingar á fylgi flokkanna en könnun Maskínu í nóvember sýnir Sjálfstæðisflokkinn með 17,9% fylgi, VG með 6,1% og Framsóknarflokkinn með 10,4 %. Á sama tíma fer Samfylkingin með himinskautum og mælist með ríflega fjórðungs fylgi, 26%.
„Jú, það hefur áhrif en heilt yfir snýst þetta bara um að halda áfram með verkefnið. Við tókum að okkur verkefnið til fjögurra ára. Það er ekki alltaf auðvelt og það verður ekkert auðveldara þegar sex ár eru liðin þótt við þekkjum hvert annað vel, bæði við sem sitjum við ríkisstjórnarborðið og liðið sem heild, þrír þingflokkar,“ útskýrir Þórdís.
Hún segir mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að ljúka því verkefni sem henni var trúað fyrir. Það verkefni standi yfir í fjögur ár. Önnur leið fyrir flokkana væri að skella sér í stjórnarandstöðu og reyna að auka fylgið þannig.
„En auðvitað hefur það áhrif þegar þú finnur og sérð samkvæmt skoðanakönnunum að fylgið er að fara niður en það er líka góð leið til að hækka fylgið og skella sér í stjórnarandstöðu. Það er líka þekkt. Það er bara þannig. Auðvitað skiptir þetta allt saman máli en það skiptir líka máli að vinna vinnuna sem þú tókst að þér fyrir fólkið sem býr í þessu landi. Það er það sem á að skipta mestu máli en pólitík er bara pólitík.“
Spursmál má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.