Það var margt um manninn þegar ljósin voru tendruð á Óslóartrénu við hátíðlega athöfn á Austurvelli í Reykjavík í dag en hefð er fyrir því að þau séu tendruð á fyrsta sunnudegi í aðventu.
Eftirvæntingin skein úr augum barnanna og bæði börn og fullorðnir tóku upp símtækin og fönguðu stafrænar minningar.
Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona var kynnir, Lúðrasveit Reykjavíkur lék aðventu- og jólalög og Sigríður Thorlacius, Snorri Helgason og hljómsveit fluttu jólalög í tilefni dagsins.
Þá flutti Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi þakkarræðu og Abdullah Alsabeehg borgarfulltrúi flutti kveðju frá Óslóarborg og afhenti þýddar bækur sem gefnar verða á skólabókasöfn í grunnskólum Reykjavíkur.
Tufti og tröllabörnin létu sjá sig til að gleðja gesti og gangandi, en misjafnt var hvernig viðstaddir tóku í nærveru kynjaveranna.
Jólasveinarnir Bjúgnakrækir og Askasleikir stálust í bæinn öllum að óvörum til að syngja og skemmta kátum krökkum.
Það kom svo í hlut fjögurra og hálfs árs gamla norsk-íslenska drengsins Kristþórs Viljars Danssonar að aðstoða við að tendra ljósin á trénu.
Það tókst virkilega vel til og ánægjan skein úr hverju andliti í nepjunni á Austurvelli.