Pakkasöfnunin tók kipp

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Pakkasöfnun Kringlunnar tók kipp í gær eftir umfjöllun fjölmiðla um að söfnunin hafi farið hægt af stað, segir Bald­vina Snælaugs­dótt­ir, markaðsstjóri Kringl­unn­ar, í samtali við mbl.is. 

„Um miðjan dag í gær var röð við innpökkunarborðið sem er við tréð. Þannig að það virðist hafa komið kippur í gær,“ segir hún en pakkarnir fara til barna á Íslandi sem búa við erfiðar aðstæður. 

Baldvina nefnir að einnig hafi aukist framlög til netsöfnunar Kringlunnar. Hún giskar að um 200 einstaklingar hafi styrkt söfnunina í gær með upphæðum frá 500 krónum og upp í 50 þúsund krónur. 

Þá er Kringlan með jólaálfa á sínum snærum, en það eru börn á aldrinum 7-14 ára sem kaupa gjöf fyrir upphæðina sem safnast á vefnum og setja undir tréð. „Ein verslun hafði til dæmis samband við okkur til að panta jólaálfana til sín eftir helgi. Álfarnir fá þá að velja 50 gjafir fyrir börn og pakka þeim inn.“ 

Baldvina vill koma á framfæri innilegum þökkum til allra sem hafa sett pakka undir tréð eða lagt söfnuninni lið. „Ég er ótrúlega spennt að fara í vinnuna og sjá þetta með eigin augum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert