Svartsengi færðist til um heilan metra

Svartsengi.
Svartsengi. mbl.is/Eyþór

Land víða á Reykjanesskaganum hefur í jarðskjálftunum þar að undanförnu færst til svo verulegu munar í sumum tilvikum. Mest er þetta við Grindavík og þar í kring. Til dæmis hefur Svartsengi, þar sem eru orkuver og baðlón, færst um réttan heilan metra, eða 100 cm, til vesturs, og 25 cm til norðurs. Þetta sýna mælingar sem Landmælingar Íslands hafa fengið og greint.

Hinn örlagaríka föstudag 10. nóvember, þegar Grindavíkurbær var rýmdur, seig jörð við Svartsengi um 35 cm, en hefur síðan þá risið um 25 cm.

Þá hefur GPS-stöð við Festarfjall, mælingapunkt sem er nokkuð fyrir austan Grindavík, færst um 60 cm til austurs og 40 cm til suðurs og hefur risið um 12 cm.

Sömuleiðis hefur staðurinn sem GPS-stöð við Grindavík er á, það er ofan á kvikuganginum í gegnum bæinn, færst um 30 cm til austurs.

Þann 10. nóvember seig jörð á umræddum stað um 100 cm og síðan hafa 20 cm bæst við. Umbrotum þessum má annars lýsa með ýmsu móti, en kannski er þetta helst líkast því að hoppað sé á trampólíndýnu.

Rætt er við Guðmund Þór Valsson, fagstjóra hjá Landmælingum Íslands, í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert