Umræður sköpuðust nýlega á samfélagsmiðlum vegna texta í barnabók Birgittu Haukdal þar sem söguhetjan var svo óþæg að hún fékk kartöflu í skóinn. Þótti mörgum foreldrum sem aðhyllast stefnu um virðingarríkt uppeldi sá siður ekki samræmast uppeldisstefnu foreldra nú orðið.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup eru foreldrar yfir fertugu mun líklegri en yngri foreldrar til að eiga barn sem hefur fengið kartöflu í skóinn, en aðeins 10 prósent foreldra undir fertugu eiga barn sem hefur gerst svo óþægt.
Þá virðist einnig sem jólasveinar séu gjarnari á að gefa börnum á landsbyggðinni kartöflu í skóinn en á höfuðborgarsvæðinu, eða um 45 prósent.
Þá eru börn þeirra sem myndu kjósa Sósíalistaflokkinn og Flokk fólksins líklegust til að hafa fundið jarðepli í skónum á aðventunni, en aðeins tæpur þriðjungur barna þeirra sem myndu kjósa Pírata og Samfylkinguna hafa upplifað slík vonbrigði.