Dæmdir í skútumáli: Þyngsti dómurinn sex ár

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Hákon

Þrír menn voru í dag sakfelldir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot í skútumálinu svokallaða, með því að standa að innflutningi að 157 kílóum af hassi til landsins.

Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara í samtali við mbl.is.

Efnin áttu að fara til Grænlands

Mennirnir, sem allir eru danskir ríkisborgarar, hlutu dóma til sex ára, fimm ára og 18 mánaða. Þeir sem voru í skútunni; Poul Frederik Olsen og Henry Fleischer hlutu sex ára og fimm ára dóma en sá sem fenginn var til landsins til aðstoðar, Jonaz Rud Vodder, hlaut 18 mánaða dóm fyrir hlutdeild sína. 

Olsen og Fleischer sigldu frá Danmörku og að Íslandi þar sem efnin fundust í leynihólfi í skútunni. Þeir höfðu ætlað sér að koma efnunum til Grænlands en þeir eru af grænlenskum uppruna.

Mennirnir þrír voru þá dæmdir til að greiða allan málskostnað og annan sakarkostnað en þær fjárhæðir hlaupa á milljónum. Fallist var á upptökukröfu eins og hún var sett fram í ákæru.

Arnþrúður segir sakfellinguna alveg á grundvelli ákærunnar en að ríkissaksóknari muni fara yfir dóminn og meta hann varðandi framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert