Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, segir að vinnan við gerð varnargarða í kringum Svartsengi gangi vel en vinnan hófst upp úr miðjum nóvember.
„Framkvæmdirnar ganga bara mjög vel og eru á áætlun. Við erum farnir að fikra okkur nær Bláa lóninu en það er eini staðurinn sem er enn þá opin. Á Sundhnúkaröðinni upp á hæðinni er til dæmis varnargarðurinn langt kominn,“ segir Ari í samtali við mbl.is.
Ari segir að unnið sé allan sólarhringinn við gerð varnargarðanna en um nýliðna helgi hafi mönnum verið gefið smá frí. Hann segir að ekki sé alveg búið að setja niður fasta dagsetningu í sambandi við verklok.
„Upp úr miðjum mánuðinum ætti að vera komin góð mynd á þetta en við erum komnir með meira en helming af öllum massanum inn í garðastæðið,“ segir Ari.
Hann segir að jafnaði hafi 60-70 manns unnið að gerð varnargarðanna.