Næstu námskeið knattspyrnuskólans Coerver Coaching á Íslandi verða á ÍR-vellinum helgina 16.-17. desember. Skólinn var stofnaður fyrir tíu árum en móðurfyrirtækið, Coerver Coaching Global, verður 40 ára á næsta ári. „Það hefur verið uppselt á öll námskeið okkar í ár en vandamálið hefur verið að fá velli til að æfa á,“ segir Heiðar Birnir Torleifsson, yfirþjálfari skólans frá upphafi og yfirþjálfari Vestra á Ísafirði. „Við viljum bæta í, því við teljum að framlag okkar skipti máli fyrir knattspyrnuna í landinu.“
Alf Galustian og Charlie Cooke stofnuðu Coerver Coaching Global og byggðu æfinga- og kennsluáætlunina á aðferðum hollenska þjálfarans Wiels Coervers, sem þjálfaði meðal annars Feyenoord á áttunda áratugnum. Áhrifa hans hefur gætt víða og til dæmis gaf Knattspyrnusamband Íslands út vídeóspólu með æfingum frá honum á sínum tíma. „Coerver Coaching starfar í tæplega 60 löndum víða um heim og hefur fengið viðurkenningu frá FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandinu,“ segir Heiðar Birnir.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.