Gæti orðið gos eða innskot

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, og Svartsengisvirkjun.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, og Svartsengisvirkjun. Samsett mynd

Ef landrisið á Reykjanesskaga heldur áfram með sama hraða og nú þá er ljóst að eitthvað mun gerast. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

„Það gæti þá leitt til eldgoss eða kvikuinnskots á ennþá minna dýpi, og einhverjir skjálftar yrðu með því, en mér finnst ólíklegt að það verði beint undir Grindavík,“ segir Þorvaldur. Hann kveðst efast um að atburðarásin í aðdraganda 10. nóvember endurtaki sig, en landrisið hefur enn ekki náð þeirri hæð sem þá var. Að sögn Þorvaldar hafa sumir miðað við þá hæð þegar áætlað er hvenær stærri skjálftar gætu gert vart við sig.

Um 200 grindvískar fjölskyldur vantar húsnæði, að sögn Karls Péturs Jónssonar, upplýsingafulltrúa Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna.

Stofnunin auglýsti um helgina eftir lausum íbúðum og sérbýli til leigu til að minnsta kosti þriggja mánaða fyrir grindvískar fjölskyldur og einstaklinga. Leigusamningarnir verða milli eigenda eigna og leigutaka, án aðkomu opinberra aðila.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, segir að í kerfinu sé ákveðið gat til staðar, þar sem einungis er til sjóður sem ætlaður er til uppkaupa á húseignum sem eru á ofanflóðahættusvæði. „Við höfum ekki áður verið í þeirri stöðu að þurfa að losa fólk undan því að búa í eignum á hættusvæðum sem ekki eru ofanflóðahættusvæði,“ segir Hulda.

Svanur Bjarnason svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, segir menn á vegum Vegagerðarinnar munu vakta svæðið næstu vikur.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert