Hættumatskort enn í gildi

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 22. nóvember er enn í gildi.

Lokanir eru áfram á Grindavíkurvegi, Suðurstrandarvegi og á Nesvegi. Leiðin inn og út úr Grindavík er sem fyrr um Suðurstrandarveg og Nesveg. Grindavíkurvegur verður áfram lokaður fyrir almenna umferð, að því er segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Opið verður fyrir íbúa frá kl. 7 á morgnana til kl. 17 síðdegis. Fyrirtæki geta hafið starfsemi kl. 7 en þurfa að hætta starfsemi kl. 21. 

Fyrirtæki geta hafið rekstur þar sem lagnakerfi eru í lagi en unnið er að því að koma þessum kerfum í lag. 

Til athugunar fyrir þá sem fara inn í bæinn:

  • Íbúar í Grindavík þurfa ekki að skrá sig til að komast inn í bæinn. Bílar eru taldir inn og út af svæðinu.
  • Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.
  • Mælst er til þess að fólk komi á eigin bílum. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með en sprungur geta reynst viðsjárverðar.
  • Frárennslislagnir liggja undir skemmdum og rennandi vatn er af skornum skammti þannig að víða er ekki hægt að nota salerni í húsum.
  • Mælt er með að fólk komi með vatn og nesti fyrir daginn.
  • Hafa ber í huga að hús gætu verið ótrygg. Hægt er að hafa samband við viðbragðsaðila í Grindavík.
  • Mikilvægt er að þeir sem fara til Grindavíkur fylgi ávallt tilmælum viðbragðsaðila.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert