Ökumaður var stöðvaður fyrir of hraðan akstur í Reykjavík en hann mældist á 108 km hraða þar sem hámarkshraði er 60 km/klst.
Ökumaðurinn reyndist vera undir áhrifum áfengis. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem dregið var úr honum blóðsýni. Hann endaði á því að kýla lögreglumann og var hann vistaður í fangaklefa fyrir ofbeldi gegn lögreglu þar til hægt verður að ræða við hann.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Tilkynnt var um ölvaðan mann sem var að áreita fólk í miðbænum. Honum var vísað á brott. Aftur var óskað aðstoðar vegna mannsins. Honum voru þá gefin skýr fyrirmæli um að fara í burtu, sem hann gerði á endanum.
Lögreglunni barst tilkynningu um hávaða frá íbúð. Lögreglan fór á vettvang en þar reyndist einn vera að spila tölvuleik og lofaði hann að hafa ekki svona hátt.
Tveir voru handteknir vegna gruns um sölu og dreifingu lyfja og fíkniefna.
Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var tilkynnt um manneskju að sprengja flugelda.
Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um minniháttar líkamsárás. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi. Tveir voru handteknir í þágu rannsóknar.
Ökumaður var jafnframt handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Hann er einnig grunaður um að hafa ekið á aðrar bifreiðar. Ökumaðurinn var vistaður í klefa í þágu rannsóknar.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manneskju í annarlegu ástandi sem neitaði að fara. Hún var farin þegar lögreglan kom á vettvang.