Yfir 100 eignir skráðar fyrir Grindvíkinga

Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið vonum framar. Þjóðin brást vel við og það eru yfir 100 eignir skráðar eins og staðan er núna.“

Þetta segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna.

Hvetja eigendur eigna í skammtímaleigu til að skrá þær

Karl segir í samtali við mbl.is að haft verði samband við alla sem skráð hafa eign og þá verði sett upp leigutorg á næstu dögum en fyrirkomulag þess verði kynnt í síðasta lagi á morgun.

Segir hann að enn sé verið í þeim fasa að safna saman íbúðunum.

„Við viljum sérstaklega beina orðum okkar til þeirra sem eru eða hafa verið með eignir í skammtímaleigu, hvort sem það eru einstaklingar eða félög sem eru með eignir sem væri hægt að losa núna næstu þrjá mánuðina.“

Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir fékk verkefnið í hendur á föstudagsmorgun að sögn Karls en stofnunin hafði sett upp kerfi, auglýsingaherferð og aðferðafræði klukkan 18 sama dag.

Karl segir að um 200 fjölskyldur séu í bráðri húsnæðisþörf ef marka megi gögn frá Rauða krossi Íslands.

„Til að mæta þeirri eftirspurn erum við svona hálfnuð.“

Skrá eign

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert