Árangur íslenskra barna hrapar í Pisa-könnun

Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri menntamálastofnunar, kynnir niðurstöðurnar.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri menntamálastofnunar, kynnir niðurstöðurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Þetta kemur fram í niðurstöðum úr PISA-könnuninni 2022 sem voru birtar í dag.

Hlutfall nemenda sem nær þessari grunnhæfni (um 60%) hefur lækkað um 14 prósentustig hér á landi frá síðustu könnun. Til samanburðar hefur prósentustigið á hinum Norðurlöndunum lækkað um þrjú til átta prósentustig.

Þar og í OECD-ríkjunum búa 26% fimmtán ára nemenda ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.

Lækkunin frá síðustu könnun er svipuð meðal stúlkna og drengja á Íslandi og kynjamunur hér á landi er enn nokkuð mikill samanborið við önnur lönd, að því er segir í tilkynningu.

47% drengja hérlendis búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi en hjá stúlkum er hlutfallið 32%. Í síðustu könnun árið 2018 var hlutfall drengja 34% en 19% hjá stúlkum.

Fáir með afburðahæfni í læsi á náttúruvísindi

Hlutfall nemenda sem búa að minnsta kosti yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi er 66%. Hún er nauðsynleg til að takast á við prófverkefni sem reyna á flóknari rökhugsun eða innihalda upplýsingar úr fleiri en einni átt. Ólíkt nemendum flestra landa stóðu stúlkur og drengir á Íslandi sig jafn vel í stærðfræðilæsi.

Hlutfall íslenskra nemenda með grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi er nú 64% og hefur lækkað um 11 prósentustig. Þá eru nemendur sem búa yfir afburðahæfni á sviðinu hlutfallslega fáir á Íslandi (2%), miðað við meðaltal OECD-ríkja (7%) og annarra Norðurlanda (9%).

Stúlkur stóðu sig betur en drengir í læsi á náttúruvísindi á Íslandi, líkt og í öðrum Norðurlöndum, að Danmörku undanskilinni.

Árangur íslenskra barna þegr kemur að lesskilningi hefur verið á …
Árangur íslenskra barna þegr kemur að lesskilningi hefur verið á niðurleið undanfarinn áratug, en lækkar mest í nýjustu PISA-könnuninni sem kynnt var í dag. Graf/Menntamálastofnun

„Þurfa að leggjast á eitt“

„Ljóst er af niðurstöðum PISA 2022 að stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og samtök þurfa að leggjast á eitt við að skilja ástæður þeirrar neikvæðu þróunar í lesskilningi og læsi sem kemur fram í könnuninni og bregðast við,” segir í tilkynningunni.

PISA-könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Niðurstöðurnar sýna verri árangur nemenda í þátttökulöndum miðað við fyrri kannanir, meðal annars á öllum Norðurlöndum og er lækkunin meiri á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á blaðamannafundi í morgun.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandi undir meðaltali í öllum flokkum

Almennt lækka þátttökulönd í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi frá 2018 til 2022. Ísland mælist undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í öllum þremur flokkum. Lægra hlutfall býr yfir grunnhæfni og afburðahæfni borið saman við meðaltal Norðurlandanna og OECD.

Alls tók 81 þjóð þátt í könnuninni, þar af 37 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti og í hverri könnun leysa nemendur verkefni í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Ísland hefur tekið þátt í PISA frá fyrstu könnun árið 2000 þegar 43 ríki tóku þátt. Fjögur ár eru liðin frá síðustu könnun vegna áhrifa heimsfaraldurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert