Fágætt eintak af frumútgáfunni af Dimmalimm seldist á 100 þúsund krónur á uppboði á vefnum myndlist.is sem lauk á sunnudag. Uppboðið var á vegum Bókarinnar og var hart bitist um Dimmalimm þær tvær vikur sem uppboðið stóð yfir. Bókin var metin á 45 þúsund krónur og seldist því á ríflega tvöföldu matsverði.
Ari Gísli Bragason bóksali sagði við Morgunblaðið á dögunum að allar útgáfur af Dimmalimm seldust nánast strax upp þegar þær kæmu inn á borð til hans. „Sagan er svo falleg og myndir Muggs einstakar,“ segir Ari Gísli. Mikill styr hefur staðið um nýja útgáfu Dimmlimmar síðustu vikur og hefur það eflaust ýtt undir áhuga á frumútgáfu bókarinnar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.