Skortur hefur verið á bréfpokum sem ætlaðir eru til flokkunar á lífrænum úrgangi að undanförnu. Margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa gripið í tómt í matvöruverslunum þar sem pokarnir liggja jafnan frammi og hefur mátt greina óánægju í fjölda færslna á samfélagsmiðlum síðustu daga. Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu, segir að búið sé að koma birgðastöðunni í samt lag og heilu gámarnir af bréfpokum hafi farið til stærstu verslanakeðjanna fyrir síðustu helgi.
Erfitt er að fullyrða um ástæður þessa tímabundna skorts á bréfpokum en sögur hafa heyrst af því að margir hafi hreinlega hamstrað þá enda hefur verið staðhæft að til standi að hefja gjaldtöku fyrir þá innan tíðar. Gunnar Dofri segir þær fregnir ekki á rökum reistar. Vissulega borgi fólk alltaf fyrir þjónustu sem þessa með einum eða öðrum hætti en ekki sé á dagskrá að rukka sérstaklega fyrir pokana.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.