Milljón í sekt fyrir innflutning á Alprazolam Krka

Alprazolam Krka töflur eru notaðar til að meðhöndla kvíðaeinkenni hjá …
Alprazolam Krka töflur eru notaðar til að meðhöndla kvíðaeinkenni hjá fullorðnum sjúklingum, sem eru alvarleg, skerða hæfni eða valda verulegri vanlíðan. Lyfið er eingöngu ætlað til notkunar í skamman tíma. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt mann til að greiða 1.080.000 krónur í sekt fyrir innflutning á 103 Alprazolam Krka-töflum, sem telst vera róandi og kvíðastillandi lyf.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákærði manninn, sem er erlendur, í október fyrir brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni með því að hafa, miðvikudaginn 7. júní 2023, staðið að innflutningi á 103 töflum af ávana- og fíknilyfinu Alprazolam Krka.

Fram kemur að maðurinn hafi flutt töflurnar ólöglega til landsins með flugi. Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fundu efnin innan klæða við leit á manninum við komuna til landsins.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að í fyrirkalli, sem var gefið út 9. nóvember 2023 og birt á lögheimili mannsins 15. nóvember 2023, hafi verið tekið fram að sækti maðurinn ekki þing mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið brot það sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum.

Maðurinn sótti ekki þing við þingfestingu málsins 28. nóvember og boðaði ekki forföll og var málið þá dómtekið.

Samkvæmt sakavottorði hefur manninum ekki áður verið gerð refsing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert