Námsefni erlendis þyngra

Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptamálaráðherra og fyrrum menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptamálaráðherra og fyrrum menntamálaráðherra. mbl.is/Eyþór

„Það eru vísbendingar um að námsefni erlendis hjá þeim ríkjum sem gengur betur – að það sé þyngra og ríkara af fagorðaforða. Við verðum að leggja meiri áherslu á það svo börnin okkar nái tökum á þessu,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Tilefnið er niðurstöður Pisa-könnunar sem kynntar voru í dag og draga þær meðal annars upp dökka mynd af stöðu lesskilnings hjá ungmennum hér landi. Í könnuninni er skoðaður lesskilningur, stærðfræðiskilningur og læsi á nátturufræði. 

Fagorðaforði af skornum skammti 

Lilja var ráðherra menntamála í síðustu ríkisstjórn. Hún segir fagorðaforða barna af skornum skammti.

„Ef barn hefur ekki yfir 98% þekkingu á orðum þá nær það ekki að draga rétta ályktun. Það er augljóst að fagorðaforði íslenskra barna í náttúruvísindum er ábótavant. Þær kerfisbreytingar sem ég setti í gang sem menntamálaráðherra miða að því að auka þennan forða og fagkennslu á mið- og unglingastiginu, t.d. með einu leyfisbréfi kennara. Þetta þarf hins vegar að byrja fyrr á miðstiginu,“ segir Lilja.

Hún bendir á að til samanburðar eru 163% fleiri tímar í náttúruvísindum í Eistlandi en á Íslandi. Því gefur auga leið að börn í Eistlandi hafi mun sterkari fagorðaforða en börn hér á landi, en landið var meðal efstu landa í Pisa-könnuninni þetta skiptið.

Af þeim sökum telur hún mikilvægt að halda áfram með kerfisbreytingar sem gerðar voru til að auka kennslu í náttúruvísindum. 

Engu að síður stendur þekkingin ekki í stað á milli kannana heldur fellur. Hvernig telur þú að á því standi?

„Öll Norðurlöndin eru að falla mikið. Við þurfum að bera saman hve mikið við erum að falla í samanburðinum. Það breytir því ekki að við verðum að halda áfram með kerfisbreytingarnar, eins og núverandi mennta- og barnamálaráðherra er að gera,“ segir Lilja.

Óásættanlegt að skýringar séu ekki betri

Þá telur hún mikilvægt að velta því upp hvort íslenskir nemendur séu hreinlega á eftir erlendum börnum í könnuninni.

„Ég þykist nokkuð viss um það að ef þessi könnun væri lögð fyrir í framhaldsskóla þá myndum við standa okkur betur. Því þá eru nemendur komnir í umhverfi sem býður upp á meiri sérhæfingu,“ segir Lilja.

Vill hún að þessar orsakir séu skoðaðar betur. „Að mínu mati er óásættanlegt að ekki séu komnar betri skýringar á þessum lakari árangri íslenskra barna. En eitt er víst að hér þarf að stórefla lesskilning barna með áherslu á fagorðaforða til þess að þau geti klárað svona grundvallarpróf með sóma,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert